top of page

Leiðtogar hafa meiri áhrif en þá grunar

"Hlutverk leiðtoga er listin að hanna aðstæður og umhverfi fyrir fólk til að dafna og eflast í."Áhrif leiðtogans


Hlutverk leiðtoga er listin að hanna aðstæður og umhverfi fyrir fólk til að dafna og eflast í. Listform sem krefst hæfileika, færni, hugrekkis og þrautseigju.


Það er ekki óalgengt viðhorf að líta á leiðtogafærni sem meðfædda, þú annaðhvort hafir hana eða ekki - og í einhverjum tilvikum getur það sjálfsagt verið tilfellið. Leiðtogafærni er hins vegar klárlega hægt að þjálfa, efla og þroska - ef vilji og ásetningur er fyrir hendi.


Og maður minn, það er til mikils að vinna. Leiðtogar hafa nefnilega meiri áhrif en þá grunar. Áhrif á líðan og árangur einstaklinga, samvinnu teyma, framgang verkefna, hagnað og árangur fyrirtækja og stofnana. Áhrif á líf fólks.


Með viðhorfi sínu, færni og hegðun nýtir leiðtoginn þessi áhrif, á jákvæðan hátt til góðs - eða jafnvel ómeðvitað á annan veg. Mig langar að við tökum höndum saman og hækkum tíðnina í leiðtogafærni á Íslandi.Af hverju mikilvægt


Já, þetta eru stór orð. En þau eru ekki sögð án umhugsunar. Undanfarin ár hefur æ meiri athygli beinst að líðan mannauðs á vinnustöðum og rannsóknir hafa sýnt að vellíðan og jafnvel hamingja starfsfólks hefur sterk tengsl við fjárhagslega afkomu fyrirtækja.


Með auknum kröfum um hraða, meiri óvissu og hærra flækjustigi almennt í umhverfi fyrirtækja hafa væntingar til starfsfólks hins vegar leitt til þess að eitt mest notaða orðið í umræðu um mannauðsmál undanfarin misseri hefur verið kulnun.


Rannsóknir hafa auk þess sagt okkur ítrekað að næsti yfirmaður sé stærsti áhrifavaldur þess hvernig fólki líður í vinnunni. Flest getum við líkast til tengt við það á einhvern hátt hvernig samskipti okkar við næsta yfirmann hafa ýmist leitt til aukins drifkrafts, eldmóðs og frumkvæðis, eða mögulega vanmáttarkenndar, sjálfsefa, streitu og jafnvel þunglyndis.


Við erum í auknum mæli orðin meðvitaðri um þessi áhrif næsta yfirmanns á okkar eigin líðan og farin að horfa sérstaklega til leiðtogafærni og fyrirtækjamenningar áður en við ráðum okkur til starfa á nýjum vinnustað. Þetta á við um yngri kynslóðina ekki síður en þá eldri.


Ímynd og færni leiðtoga hefur því umtalsverð áhrif á það hversu eftirsóttir vinnustaðir eru - hvort þeir haldi í og laði að hæfileikaríkt starfsfólk eða ekki.Við högnumst öll


Það er hagur okkar sem einstaklinga að líða vel í starfi - að finna virði okkar, nýta hæfileika okkar og tilheyra samheldinni liðsheild sem nær árangri. Þegar það tekst þá líður okkur vel, þá hlökkum við til að mæta í vinnuna, þá finnum við eldmóð og hvata til að halda áfram að ná árangri, jafnvel þó á móti blási.


Það er hagur hvers fyrirtækis að halda í og laða að hæfileikaríkt starfsfólk.


Það er hagur eigenda og hluthafa að starfsfólki sé búið þannig umhverfi að það nýti hæfileika sína til fulls, því þannig verða til framúrskarandi vörur og þjónusta, grundvöllur fjárhagslegrar afkomu.


Það er hagur okkar sem samfélags að fólki líði vel á sál og líkama, að heilsuhagkerfið okkar sé vel á sig komið.


Það er hagur okkar sem þjóðar að litið sé til okkar sem fyrirmyndar á alþjóðavettvangi.


Hugsið ykkur ávinninginn ef við gætum hækkað tíðnina í leiðtogafærni á Íslandi. Ef við myndum hjálpast betur að við að skapa starfsumhverfi í fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi sem styður fólk í að þróast og vaxa bæði sem einstaklingar og liðsheild. Vinnustaði þar sem rými er fyrir tilraunir, mistök og sameiginlegan lærdóm. Ef við saman myndum skapa samfélag þar sem fólk nýtur sín, nýtir styrkleika sína, finnur virði sitt og hlakkar almennt til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Hugsið ykkur hvaða áhrif við gætum saman haft á gæði, til dæmis gæði vöru og þjónustu, gæði nýsköpunar, gæði andlegrar og líkamlegrar heilsu - og þannig aukið bæði sjálfbærni okkar og samkeppnishæfni okkar sem þjóð.Ný leið að hærri tíðni


Við höfum öll mismunandi sýn, mismunandi reynslu og hugmyndir um leiðtogahlutverkið og hvað hærri tíðni gæti þýtt. Sköpum samfélag þar sem við skiptumst á skoðunum, hugmyndum og reynslu og tengjumst hvort öðru til að hækka tíðnina saman.


Með þennan tilgang að leiðarljósi hefur verið búinn til hópur á LinkedIn: Leiðtogar á Íslandi. Þessum nýja vettvangi er ætlað að skapa samfélag leiðtoga á Íslandi sem vilja efla sig, þróast og þroskast í leiðtogahlutverkinu og hafa þannig jákvæð áhrif til góðs.


Komdu og vertu með, styðjum hvort annað í átt að hærri tíðni. Hlakka til að sjá þig þar og heyra þína hlið!
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 28.maí 2021 og var unnin í samvinnu við stofnmeðlimi LinkedIn hópsins Leiðtogar á Íslandi:


Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir: framkvæmdastjóri Vök baths og formaður stjórnvísi

Áslaug Ármannsdóttir: MPM verkefnastjóri, teymis- og leiðtogaþjálfi

Birna Dröfn Birgisdóttir: Sköpunargleðifræðingur

Brynja Hlin Ágústdóttir: Ferðaráðgjafi

Kolbrún Magnúsdóttir: Mannauðsráðgjafi, leiðtogamarkþjálfi og teymisþjálfi

Lára Kristín Skúladóttir: Stjórnunarráðgjafi, leiðtoga- og teymisþjálfi og lóðs

Páll Daníelsson: Deildastjóri Rauði krossinn

Comments


Lára (2)_edited.jpg

Í pistlum mínum skrifa ég um leiðtogafærni, persónulegan vöxt og mögulegar leiðir fyrir fyrirtæki í átt að skýrri sýn, sterkri liðsheild og langtímaárangri. 

Post Archive 

Tags

bottom of page